4.7.2014 kl. 22:00

Álfafirrð

Ef þú sérð fólk deila í fjölmiðlum hvar álfabyggðir séu, þá geturðu treyst tvennu. Annað er að sá sem deilir veit ekkert um álfa annað en það sem lesið hefur en vill þó gjarna vita um álfa. Hitt er að viðkomandi er að bulla í fólki sem áhuga hefur á huldufólki.

Orðin Álfur og Huldufólk eru hugtök sem bæði tákna sams konar verur eða vætti. Í nær öllum tilfellum er átt við vætti sem líkjast mannfólki útlitslega en ekki nauðsynlega í sams konar stærðum. Mjög algengar eru álfabyggðir þar sem búa smávaxnir vættir og má meta það út frá stærð mögulegra bústaða.

Aðeins í fjögurra mínútna gönguferð frá þar sem þessi grein er rituð er gömul álfaborg sem nú er í eyði, utan einn eldri álf sem líður vel þar. Sú byggð lagðist í eyði vegna mannabyggða og ónæðis af þeim völdum.

Ekki er síður algeng álfategund sem er á stærð við mannfólk og í sumum tilfellum hávaxnari og e.t.v. renglulegri ef viðhafa má slík orð. Af þeirri vættategund höfum við mannfólk meiri reynslu en hinum, í það minnsta sé miðað við þjóðsögur okkar og reynslu margra ófreskra í nútíma okkar.

Þó skal ósagt látið hverju við höfum mesta reynslu af því til eru mun fleiri tegundir Álfa. Áður hef ég minnst á Svartálfa sem er afar áhugaverð vættagerð en hér mætti til gamans nefna Blómálfa sem gegna mikilvægu hlutverki í jurtaríki og þá er átt við allt jurtaríkið en ekki bara blóm.

Sjálfur hef ég sérstakt dálæti á Ljósálfum sem eru afar fíngerðar og smáar verur sem skarast einungis við okkar veröld þegar þær gægjast úr sinni eigin yfir í okkar dansandi ofan á kertalogum eða smáum varðeldum.

Ljósálfar búa yfir mörgum sérstökum töfrum sem við öll höfum kynnst við logana. Langt mál væri að telja það upp og hugsanlega mætti gera skil síðar í annarri grein.

Svo sem ljóst má vera af framangreindu þá getur hugtakið Álfur átt við margs konar vættir sem erfitt er að skilgreina nánar í merkingarfræði (Semantics) tungumálsins. Til gamans má nefna að við getum ekki notað hugtakið Álfur um Dverga, sem eru vættir allt annars eðlis. Þá sést ef nánar er að gætt að Huldumaður er hugtak um þá tegund Álfa sem eru á stærð við okkur mannfólk.

Hér kem ég einmitt að inntaki þeirra orða er ég lagði upp með. Svo sem sumum lesendum mínum er kunnugt hef ég einstaka unun af Tröllum og áhrifum þeirra á þróun Íslenskrar menningar. Hika ég ekki við í skrifum mínum, eða á öðrum vettvangi, að benda á bústaði trölla en aldrei bendi ég á bústaði álfa!

Áður en ég sjálfur hafði bein kynni af álfum, menningarlegri hugsun þeirra s.s. sýn á lífið og okkur, nú eða á bústaði þeirra, hikaði ég ekkert við að benda á kletta og aðra staði og fullyrða að þær væru álfabyggðir. Síðan hef ég kynnst því að þó segja megi frá beinni reynslu af álfum, sem ég geri ekki í rituðu máli, þá vilja þeir ekki að þeir séu auglýstir: Þess vegna fara þeir dult.

Ef þú kynnist huldufólki muntu sjá hvers vegna framangreint er ritað.

Þú munt skilja eðli þess og nær örugglega verða því sammála. Þú munt einnig taka eftir því að sjaldan geta þjóðsögur okkar og álfafrásagnir þess hvar byggðir þeirra séu nákvæmlega nema þær séu yfirgefnar. Ennfremur að flestar eru þær sagðar af þriðja aðila.